Snáðinn í Belgíu
Skrapp til Belgíu í einn dag. Pantaði mér far með Eurostar lestinni og þarsem krónan er í teilspinni og pundið alls ekki gefins brá ég á það ráð að panta ódýrasta far sem völ var á: klukkan 06:00. Planið var einfalt: detta í svefn um 23:00 kvöldið áður, ná svona 6 tímum, taka leigubíl út á Waterloo og taka svo 2 tíma í lestinni til að lenda ekki í svefnskuld með dráttarvöxtum. Að sjálfsögðu tókst mér að fara ekki í háttinn fyrr en um 02:00 og þegar ég gerði MVP-tékk (Miði, Vegabréf, Peningar) uppgötvaði ég mér til mikils hryllings að kortaveskið mitt var HORFIÐ. Eftir klukkutíma leit að því fann ég það límt í ofanverðri tromlunni á þvottavélinni eins og obláta sem festist á gómi. Lá í móki í klukkutíma áður en ég tók leigubíl skjálfandi og sveittur og náði svo að sofna smá í fósturstellingu í lestinni, slefandi á annað sætið. Kom inn í Brussel og fyrsti hraðbankinn sem ég prófaði svaraði mér með skætingi á flæmsku. Ég var sannfærður að kortið væri ónýtt, þvegið á of háum hita. Eftir 45 mínútna labb um annars fallega borg fann ég loks hraðbanka sem virkaði og skellti mér í kjölfarið að hitta Krulla frænda sem býr hér og starfar hjá eftirlitsstofnun EFTA. Mér var vel tekið þar á bæ, talaði smá norsku við samstarfsmenn Krulla og fékk meira að segja svona fínan passa sem ég gleymdi næstum að skila þegar við fórum út að borða í hádeginu.
Leiðin lá svo til Gent þarsem ég átti rondevú við Úlf og Apparat. Þetta voru miklir fagnaðarfundir og ekki laust við að menn yrðu klökkir því ég hef ekki verið "on the road" með þeim síðan 2001 í Danmörku, sælla minninga. Hörður Bragason, e.þ.s. Gason Bra, rifjaði upp gælunafn mitt innan hljómsveitarinnar en þeir kölluðu mig alltaf ,,snáðann" í den tid og var ég glaður að rifja þetta upp, enda hef ég sjaldnast þótt nógu merkilegur til að hafa gælunafn.
Eftir stutta hljóðprufu var haldið á hótel í 15 mín og svo farið á blaðamannafund sem var í skrýtnara lagi; kynnirinn stamaði, sneri bakinu í áhorfendur og spurði furðulegra spurninga. Ég brá á það ráð að koma með spurningu úr salnum, sem var reyndar plönuð fyrirfram eins og allar bestu spurningarnar, og vakti það nokkra kátínu.
Svo kom dansatriði sem stúlkur í belgískum danshóp höfðu samið við lagið Stereo Rock and Roll. Það minnti mig helst á atriði í undankeppni Skrekks, þær rugluðust pínu og voru lítt samhæfðar í fínhreyfingum. Engu að síður voða krúttlegt allt saman.
Nújæja, tónleikarnir voru vægast sagt flottir og eins bullandi hlutdrægur og ég nú er þá fannst mér þetta vera einn besti performans sem ég hef séð með bandinu. Salurinn tók líka vel í þetta eins og má sjá hér og þó þekktu fæstir lögin fyrir. Ég fann stað á miðju gólfinu þarsem fólk var farið að slamma og slóst með í hasarinn þangað til að svefnleysið fór að segja til sín og færði mig aftar í kaldara loftslag.
Stjarna þessarar ferðar var Páll Einarsson sem var á tökkunum þetta kvöldið og mixaði herlegheitin ofan í Belgana af stakri snilld. En fyrir utan að útvega þetta fína sánd á tónleikunum þá fór hann á kostum hvað eftir annað með sögum og skrýtlum. Hápunktur ferðarinnar var í morgunmatnum daginn eftir þegar hann útskýrði fyrir okkur aðaláhugamál sitt: að veiða geitunga og hafa þá sem gæludýr.
Í stuttu máli var hann búinn að finna leið til að setja litla ól á hálsinn á geitungi þannig að maður gæti farið með hann út að ganga. Einnig var hann með miklar hugmyndir um að búa til geitungaknúna flugvél og gera englaspil sem væri knúið af geitungakrafti. Myndband má finna hér.
Þessu öllu ótengt: hér er myndband af flottum gaur sem spilar stundum á gítar á brúnni fyrir ofan Camden síkið. Helvíti svalur!
2 Comments:
Enjoyed a lot! Davy web site marketing Powerlite s3 multimedia projector salinas brazilian swimsuits 2004 Dermasal tattoo removal top ten mp3 players rock climbing shoes http://www.bedroombondage8.info
Enjoyed a lot! »
Post a Comment
<< Home