Ariel D. Járn delerar og fabúlerar

Saturday, June 24, 2006

Red Hot Chili Peppers eru saklausir

Nú stendur yfir fáránlegt besserwisseringa-rifrildi á netinu um hvort lag Red Hot Chili Peppers "Dani California" sé í raun bara lagið "Last Dance with Mary Jane" eftir Tom Petty.

Svo virðist sem tveir Þórðarglaðir amatör-plötusnúðar hafi komið vitleysunni af stað með því að taka lag Petty's, spila það hraðar og bera þau tvö saman í örfáar sekúndur.

Einhvern veginn virðist það hafa gleymst hjá snillingunum að taka það fram að einungis er um er að ræða brot úr báðum lögunum, viðlögin eru gjörólík og lag RHCP hefur fleiri ólíka kafla.

Að sama skapi rista ásaknir um textatengsl grunnt; orðið Indiana birtist í báðum lögum og bæði lýsa þau sögu stúlku sem fer af beinu brautinni. Veit ekki til þess að neinn eigi einkaleyfi á því minni.

Þá ber að nefna að snillingurinn Rick Rubin útsetti bæði lögin og sá ekkert athugavert við þetta.

Þetta er klippan sem flestir nota til að bera lögin saman, en vert er að minnast á að hún er afar villandi og blandar t.d. trommum RHCP við lag Petty's í byrjuninni, og stendur sú fölsun meira að segja ansi tæpt því upphafsgítar-riff Petty's er mun afslappaðara og óreglulegra og fer á endanum úr takti. Einnig er það spilað allt of hratt.

Fyrir þá sem nenna að hlusta á virkilega vitlausa kalla bulla rosalega mikið og lengi, þá er það hægt hérna. Um er að ræða fíflin sem hófu þessa vitleysu og heyrist vel hvað hlakkar í þeim er þeir telja sig hafa gert einhverja stórkostlega uppgötvun.

Sjálfur ætla ég að vinna í að koma hér inn klippu sem ber saman viðlögin tvö, svona rétt til þess að benda á að meirihluti lagsins er ekkert líkur lagi Petty's, sem vel að merkja hefur svipaðan hljómagang og milljón önnur lög.