Ariel D. Járn delerar og fabúlerar

Thursday, September 28, 2006

Gleðifréttir!


Fékk nýlega að vita að ég hef staðist allt í London Film School og er kominn með MA gráðu í handritsskrifum. Stórskemmtileg tíðindi og ég fer út í desember til að klæða mig í skikkju og setja á mig skrýtinn hatt.

Eitt vandamál hefur hins vegar verið óleyst í marga mánuði; höfundarrétturinn á handritunum sem við skrifuðum í skólanum. Skólinn hefur dregið lappirnar hvað þetta varðar allar götur síðan ég hóf nám í fyrra og þegar útlitið var verst var skólastjórinn farinn að ýja að því að við gætum keypt hann aftur!!!

Í dag var hinsvegar staðfest að það er fyrir bí; allir nemendur fá að eiga höfundarréttinn sinn, enda væri annað frekar skrýtið.

Þetta þýðir að handritið mitt sem ég skrifaði í vetur er loksins MÍN EIGN og ég get haldið áfram að skrifa það laus við allar áhyggjur um að ég muni seinna þurfa að leysa það úr gíslingu með prósentum á ógerðri kvikmynd sem mun örugglega ekki koma til með að skila hagnaði hvort eð er.

Free at last!

P.S. Ég er ekki að kvarta.

Tuesday, September 05, 2006

Örninn er lentur


Þá hef ég lokið ferli mínum sem flugþjónn og var seinasta flugið eftirminnilegt; leiguflug til Mallorca.

Þegar ég sá flugið á skránni minni varð mér hugsað til sjöunda áratugsins þegar Loftleiðir flugu með fulla íslendinga til og frá sólarlöndum. Þá var öldin önnur: allir með gjaldeyri í tösku, drukkið stíft fram og til baka, keðjureykt aftast í vélinni og ekkert mál að labba fram í flugstjórnarklefa til að eiga orð við flugmennina.

Flugið mitt var hins vegar ósköp venjulegt eins og við var að búast; rólegir og þægilegir farþegar, engin ölvun, ekkert reykt og flugstjórnarklefinn að sjálfsögðu harðlæstur.

Nema eitt: vélin var ekki merkt Icelandair heldur Loftleiðum.

Leiguflugin eru nefnilega gerð út í nafni gamla félagsins þannig að öfugt við allar kempurnar sem ég hef flogið með þessi tvö sumur get ég sagst hafa byrjað ferilinn hjá Icelandair og endað hann hjá Loftleiðum.

Geri aðrir betur.

P.S. Ég varð 25 ára í dag.