Ariel D. Járn delerar og fabúlerar

Saturday, June 24, 2006

Red Hot Chili Peppers eru saklausir

Nú stendur yfir fáránlegt besserwisseringa-rifrildi á netinu um hvort lag Red Hot Chili Peppers "Dani California" sé í raun bara lagið "Last Dance with Mary Jane" eftir Tom Petty.

Svo virðist sem tveir Þórðarglaðir amatör-plötusnúðar hafi komið vitleysunni af stað með því að taka lag Petty's, spila það hraðar og bera þau tvö saman í örfáar sekúndur.

Einhvern veginn virðist það hafa gleymst hjá snillingunum að taka það fram að einungis er um er að ræða brot úr báðum lögunum, viðlögin eru gjörólík og lag RHCP hefur fleiri ólíka kafla.

Að sama skapi rista ásaknir um textatengsl grunnt; orðið Indiana birtist í báðum lögum og bæði lýsa þau sögu stúlku sem fer af beinu brautinni. Veit ekki til þess að neinn eigi einkaleyfi á því minni.

Þá ber að nefna að snillingurinn Rick Rubin útsetti bæði lögin og sá ekkert athugavert við þetta.

Þetta er klippan sem flestir nota til að bera lögin saman, en vert er að minnast á að hún er afar villandi og blandar t.d. trommum RHCP við lag Petty's í byrjuninni, og stendur sú fölsun meira að segja ansi tæpt því upphafsgítar-riff Petty's er mun afslappaðara og óreglulegra og fer á endanum úr takti. Einnig er það spilað allt of hratt.

Fyrir þá sem nenna að hlusta á virkilega vitlausa kalla bulla rosalega mikið og lengi, þá er það hægt hérna. Um er að ræða fíflin sem hófu þessa vitleysu og heyrist vel hvað hlakkar í þeim er þeir telja sig hafa gert einhverja stórkostlega uppgötvun.

Sjálfur ætla ég að vinna í að koma hér inn klippu sem ber saman viðlögin tvö, svona rétt til þess að benda á að meirihluti lagsins er ekkert líkur lagi Petty's, sem vel að merkja hefur svipaðan hljómagang og milljón önnur lög.

Thursday, June 22, 2006

Mávamorð í Reykjavík


Borgaryfirvöld hafa tilkynnt mörgum til hryllings að nú verði farið í herferð til að uppræta máva við Reykjavíkurtjörn.

Mér þótti Gísli Marteinn hálf furðulegur þegar ég sá hann útskýra strategíuna fyrir NFS í gær, hann minnti mig meira á marskálk en þennan mjúka og jákvæða mann sem talaði um leikskóla og fjölskylduna.

En fjölskyldusjónarmið reyndust svo vera tengingin; það verður að uppræta mávana til að börnin geti gefið öndunum brauð í friði, án þess að "hafa mávinn gargandi yfir sér sínkt og heilagt," eins og GMB komst skemmtilega að orði.

Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar, sagði þetta skelfilega hugmynd og benti á að best væri bara að hætta að gefa brauð. Flestir vita enda að öndum er enginn greiði gerður með því að fita þær á sætu brauði.

En hin krúttlega brauð-athöfn er greinilega svo hjartfólgin fjölskyldufólki að það verður að fara út í stórfellda skothríð gegn mávum til að verja hana.

Mér þykir þessi málflutningur standa á slíkum "brauðfótum" (trommusóló hér, takk) að réttast væri að rífa hann (þ.e.a.s. málflutninginn) í mola og gefa öndunum, þá væru nú jólin enda nóg til að smjatta á í því bakaríinu!

Betra væri frekar að finna milliveginn þannig að báðir hópar verði sáttir og tel ég mig hafa lausnina:

Það er ákveðin kúnst að gefa öndum brauð, og sjóaðir brauðgjafar kunna ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Fyrir það fyrsta er hægt að stýra andahópum nokkuð vel ef kastað er markvisst og spart. Mávarnir koma hægar og síður ef þetta er gert RÓLEGA, án þess að heilu brauðstykkjunum sé dælt ómarkvisst út um allt.

Mávarnir munu hinsvegar alltaf koma og því um að gera að láta þau safnast saman frá öndunum. Þetta má gera með því að kasta einstaka brauðbita til þeirra og þétta jafnframt þyrpinguna.

Þegar þeir eru komnir nálægt bakkanum byrjar svo fjörið, og tek ég það fram að sá sem kenndi mér þetta trix var hinn dansk-spænski vinur minn Diego Nielsen sem bjó í Reykjavík í fyrrasumar:

Maður stendur einfaldlega upp og veifar handleggjunum upp og niður í sífellu. Á augabragði forða mávarnir sér allir sem einn, en endurnar eru eftir. Ránfuglar hræðast ekkert nema stærri ránfugla.

Þetta krefst reyndar talsverðar æfingar og er skiljanlegt að börn séu sein til að skilja bæði teórískar og praktískar hliðar brauðgjafar.

Því finnst mér að borgaryfirvöld ættu frekar að prenta bækling þar sem þessar aðferðir eru kenndar og dreifa honum til allra borgarbúa, auk þess sem hægt væri að reisa skilti á völdum stöðum við tjörnina þar sem leiðbeiningarnar væru líka á útlensku fyrir ferðamennina.

Þannig myndu allir fá eitthvað fyrir sinn snúð, fuglavinir, fjöslkyldufólk og borgarstjórn.

Ef þetta nær hins vegar fram að ganga verður mikill sjónarsviptir af mávinum, enda hef hef oft séð spaugileg atvik honum tengd. Læt hér gossa eina sögu:

Eftir mikla djammnótt sumarið 2004 stend ég fyrir utan vöffluvagninn á Lækjartorgi og gæði mér á belgísku bakkelsi.

Sem ég stend þarna verður mér litið á mannkerti sem skjögrar fyrir utan Héraðsdóm, talsvert ölvaður. Sá er klæddur fínum teinóttum jakkafötum, með farsíma í einni hönd og hálfétinn Nonna-bita í hinni. Maðurinn er talsvert málglaður og Nonninn því vanræktur og orðinn gegnsósa af sósunni frægu.

Skyndilega hrynur hálfur Nonninn í jörðina. Helvítis djöfull segir maðurinn og heldur áfram að tala. Hann er varla genginn tvö skref frá slysstað þegar fljúgandi mávur nælir í risavaxinn bitann og hefur sig til lofts með fenginn.

En bitinn er slepjóttur og losnar úr gogg mávsins og hrynur beint niður á vinstri öxlina á manninum sem bölvar mávinum hressilega svo viðmælandinn skilur ekki neitt.

Spurning hvort þessi maður hafi einhverja kontakta í ráðhúsinu?

P.S. Endilega kommentið, ég er gífurlega fáfróður um lífríki Reykjavíkurtjarnar þó ég þykist vel að mér í ýmsu.

Dead Line Walking


Nú eru 13 klst. í að ég eigi að skila inn uppkasti númer tvö af handritinu og ég á enn eftir að slá 30 bls. inn á tölvugarminn.

Sem er samt fínt, í það minnsta er ég búinn að ákveða hvað ég ætla að skrifa. Mikill munur að þurfa ekki að gera það jafnóðum.

"The hardest thing about writing is knowing what to write."

Ójá! Þokkalega!

UPPFÆRT: Þetta er nú meira bullið!



(Myndin er sviðsett)

Hef það ennþá...

Skeggleysi var lengi vandamál hjá mér, á meðan Arnaldur vinur minn gat valsað inn í ÁTVR að vild 16 ára gamall átti ég ennþá erfitt með að komast á bannaðar kvikmyndir í Sam-bíóunum, en í seinni tíð hefur þetta verið að spretta hægt og rólega.

Fór hins vegar út í búð áðan að kaupa tvo flöskubjóra og var spurður um skilríki. Þetta er skemmtileg tímasetning þarsem ég hef ekki rakað mig í meira en viku og er því eins fúlskeggjaður og ég get orðið.

Afgreiðslumaðurinn rak upp stór augu þegar hann sá að ég væri fæddur 1981, sagði að ég liti í mesta lagi út fyrir að vera fæddur 1989!

Ég verð 25 ára í ár og spurningin er hvort maður eigi ekki bara að kætast, þetta sé vísbending um að maður muni eldast vel og verða það sem kallst "silfur-refur," eins og Georg Klúní og fleiri góðir menn?

Tuesday, June 20, 2006

Dramatík

Nú var að hefjast HM barátta milli Englands og Svíþjóðar og Michael Owen var að meiðast eftir eina mínútu.

England hefur ekki unnið Svíþjóð síðan 1968 og er ekki laust við að ég sé á báðum áttum með hvoru liðinu á á að halda. Báðar þjóðir eru mér kærar, ég bjó í Englandi sem barn og núna í vetur og er alinn upp af fólki sem lagði grunninn að sinni uppeldistækni í Svíþjóð.

Hvað á ég til bragðs að taka?

UPPFÆRT: 2-2. England átti samúð mína en Svíþjóð voru betri, gamla grýlan! Joe Cole bestur hjá Englandi.

Listi yfir hluti sem ég hélt að væru þýskir en reyndust svo vera franskir

1. Kronenbourg
2. Arsene Wenger

Friday, June 16, 2006

Bitið fast í rykið



Fór með pabba og Halldóri áðan á söngleikinn "We will rock you" sem spunninn er í kringum lög hljómsveitarinnar Queen. Er skemmst frá því að segja að hér er á ferðinni einhver sú allra versta hrákasmíð sem ég hef nokkru sinni séð.

Eins og tíðkast í svona uppfærslum er spunninn söguþráður sem leiðir til ákveðinna laga. Sögusvið söngleiks er margstolið og þreytt. Árið er tvöþúsúndþrjúhundruðogeitthvað og það er búið að banna rokktónlist (Fahrenheit 451). Stórt og sálarlaust fyrirtæki er rekið af hryllilegri konu sem kallast Mom (stolið beint úr Futurrama!) og fylgist fyrirtækið með hvað fólk er að gera og bælir niður sjálfstæða hugsun (1984) og svo búa uppreisnarmenn neðanjarðar (ótal, ÓTAL myndir og bækur) og beðið er eftir einhverskonar "leiðtoga."

Sá er ljóshærður vælukjói og með í för er leiðinlegasta stelpa í heimi sem á að vera einhverskonar grín sædkikk og gaf ég henni nafnið "comic burden." Upphefst svo leiðinleg og framvindulaus saga sem endar í anti-klímaxi, troðfull af vondu "karlar eru frá Mars, konur frá Venus"-gríni.

Lagavalið var misheppnað og mörg bestu lögin ekki spiluð. Við feðgar vorum viti okkar fjær af leiðindum allan tímann og sammála um að verri óður til góðrar hljómsveitar væri vandfundinn.

Ben Elton, sem eitt sinn hafði nafnbótina meistari í mínum húsum hefur verið lækkaður í tign og má núna bara kalla sig "the former genius formerly known as Ben Elton."

Svo er rokk bara ekkert jafn merkilegt og þetta fólk heldur. Ég meina, ég ELSKA rokk, en þetta er bara tónlistarstefna. Allur söngleikurinn gengur út á að rokk sé mótvægi við auðvaldið og valdasamteypur. Gott og vel.

En hvernig er þá hægt að útskýra stríðsglaða Bush-elskandi menn eins og Ted Nugent? Eða plötuútgáfuveldi Metallicu? Hvað með sjálfa Bítlanna sem í dag eru einungis til sem svakalegt lögfræðibatterí sem fer reglulega í mál við Apple Computers og græðir milljarða?

Eða þá hljómsveitina Queen+ sem samanstendur af Brian May, Roger Taylor og sessíon-hórum og er að fara á tónleikaferðalag?

Rokk er tónlist. Heilindi koma málinu ekkert við.

Tuesday, June 13, 2006

Mútur á HM?

Ég hélt í alvörunni að það væri tilfellið fyrst þegar ég rak augun í þessa fyrirsögn á mbl.is

Fór strax að hugsa eitthvað á þessa leið: nú ef það er svona fjandi gott bakkelsið í Brasilíu, hvers vegna vinnur danskurinn ekki oftar?

Sló mér svo á lær. Ekki er nú öll vitleysan eins! Heyr á endemi. Jájá, frændi minn.

Meistari Grétar Amazeen heimsótti mig á dögunum og útskýrði fyrir mér reglurnar á meðan við horfðum á England-Paragvæ. Þar eð ég er frekar illa að mér í boltanum var einungis tímaspursmál hvenær frasi myndi fæðast:

,,Hausskot? Má það?"

Þetta var fært til bókar samstundis og er Grétar meðhöfundur.

Pub Quiz

Fór á pöbb-kviss með félögum mínum Adam Dewar og Guy Lodge. Keppnin var mjög spennandi en talsverðs ósamræmis gætti hvað fjölda keppenda í hverju liði varðaði. Við vorum þrír og í 4. sæti með 95 stig en sigurliðið taldi 10 manns og vann það með 103 stigum. Hvað sem því leið þá vorum við svakalega ánægðir með verðlaunin, 10 sterling, og stefnum á að leggja þau í sjóð og ávaxta.



Guy er suður-afrískur og sagði mér frá vinsælasta kvikmyndaleikstjóra heimalands síns; Leon Schuster. Sá er einhverskonar grínisti sem tók við keflinu frá Jaimie heitnum Uys sem íslendingar minnast með hlýhug fyrir myndir sínar "The Gods must be crazy" og földumyndavélamyndina "Funny People 2" þar sem velstætt hvítt efristéttarfólk gerði at í fátækum blökkumönnum. Báðar myndinar hafa alltaf verið mjög umdeildar, ekki síst eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok.

Schuster á vinsælustu mynd allra tíma í Suður-Afríku og heitir hún: "There is a Zulu on my Stoep" (ísl. ,,það er Súlú-maður á veröndinni minni." Er það einskonar blanda af leikinni grínmynd og falinni myndavél sem ekki einu sinni "Titanic" tókst að slá út. Meðal annarra ,,meistaraverka" Schusters má nefna; "Panic Mechanic", "You must be joking!" og "You must be joking too!"



Þó Guy hafi borið myndum Schusters illa söguna þá langar mig engu að síður mikið til að sjá þær, ef ekki bara fyrir þær sakir að mig svíður enn eftir að Leo og Kate mörðu aðsóknarmet "Með allt á hreinu" sem var fram til 1998 vinsælasta mynd allra tíma á Íslandi og tók á sínum tíma 117.000 manns í bíó, þar af 47.000 á landsbyggðinni. Við höfðum sérstöðu sem kvikmyndaþjóð fram að því.

UPPFÆRT: Ég hef ákveðið að reyna að slá í gegn í S-Afríku með því að gera svona földumyndavélamynd í anda Jamie Uys. Hún mun heita:

"Is that a Krugerand in your pocket, or are you just happy to see me?"

Skáldið í garðinum


Í svona góðu veðri er erfitt að sitja fyrir framan tölvuskjá. Brá ég því á það ráð að skella mér í Regent's Park og skrifa þar upp á gamla móðinn, þ.e.a.s. með sjálfblekungi og pappírshefti. Þóttist ég vera ansi klár þar sem ég sat og lét mér detta í hug alls konar vitleysu fyrir handritið mitt. Nei, það er ekkert meira í þessari færslu. Hvað? Ég má alveg blogga um ekkert stundum. Ókei, gleymum þessu.

Eyðufyllinga-pistillinn

Eftir að hafa lesið pistla dag eftir dag í Fréttablaðinu í mörg ár, hef ég loksins fundið upp pistla-formúlu:

,,Sumir gera fátt annað en A. A hitt og A þetta. Aðrir segja að A sé bölvuð vitleysa og B sé málið. Sjálfur hef ég alltaf hallast að C því ég er svo yfirvegaður og tek ekki þátt í þessu rugli heldur halla mér sposkur aftur á bak, horfi yfir þjóðfélagið og hlæ með sjálfum mér."

Öllum þeim sem lenda í að þurfa að skrifa pistil um málefni líðandi stundar er velkomið að nota formúluna.

Monday, June 12, 2006

Ó fyrir aftan

Ó- endingin er rosalega fyndið fyrirbæri, gerir allt miklu krúttlegra. Á mínu heimili hefur hún helst verið notuð á götuheiti hjá afa og ömmu, s.s. afi í Brekkó og amma á Tómó. Margrét vinkona mín kallar grjónagraut alltaf grjónó. Sjálfum finnst mér skemmtilegast að nota þetta um hluti sem eru alls ekki krúttlegir; skattframtaló, tvöfalt manndrápó, alþingó, lifrarbilunó og svo framvegis. Hvað finnst ykkur?