Ariel D. Járn delerar og fabúlerar

Sunday, May 13, 2007

Þjóðstjórn

Ef Frjálslyndir, Íslandshreyfingin og Vinstri Græn myndu sameinast undir merkjum Maóista og tækju upp listabókstafinn M, hvað myndi þá þjóðstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Maóista heita ?

Svar: BDSM

Sunday, January 07, 2007

Tvöþúsundogsjö

Þá er 2007 orðið að veruleika. Mér finnst magnað að það sé liðinn áratugur frá 1997.

Þetta ár byrjaði ég í menntaskóla og fór að læra á bíl. Ætli það sé ekki svona það helsta sem gerðist, fyrir utan það að það voru einhverjar hræringar í þjóðfélaginu. Ég man það ekki, ég var of upptekinn við að hlusta á fyrstu smáskífu Quarashi.

Áratugur. Árafokkingtugur. Ég ætla að fara að halda dagbók.

Var hjá Arnaldi að ræða við Grím frænda í gær. Hann talaði um að maður ritskoðaði alltaf allt sem maður segði og skrifaði. Hversu ritskoðuð eru þá bloggin? Og hvað er þau? Persónuleg skrif sem allir mega samt skoða?

Hljómar svolítið eins og flassari sem er samt alltaf í fötum.

Monday, October 30, 2006

Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Magnað hvað ég á erfitt með að fella mig við báða hópana sem takast á yfir hvalveiðunum.

Það má eiginlega segja að ég sé orðinn langreiður út af þessu öllu saman.

P.S. Ég er að springa úr hlátri núna. Virkilega að springa.

Thursday, September 28, 2006

Gleðifréttir!


Fékk nýlega að vita að ég hef staðist allt í London Film School og er kominn með MA gráðu í handritsskrifum. Stórskemmtileg tíðindi og ég fer út í desember til að klæða mig í skikkju og setja á mig skrýtinn hatt.

Eitt vandamál hefur hins vegar verið óleyst í marga mánuði; höfundarrétturinn á handritunum sem við skrifuðum í skólanum. Skólinn hefur dregið lappirnar hvað þetta varðar allar götur síðan ég hóf nám í fyrra og þegar útlitið var verst var skólastjórinn farinn að ýja að því að við gætum keypt hann aftur!!!

Í dag var hinsvegar staðfest að það er fyrir bí; allir nemendur fá að eiga höfundarréttinn sinn, enda væri annað frekar skrýtið.

Þetta þýðir að handritið mitt sem ég skrifaði í vetur er loksins MÍN EIGN og ég get haldið áfram að skrifa það laus við allar áhyggjur um að ég muni seinna þurfa að leysa það úr gíslingu með prósentum á ógerðri kvikmynd sem mun örugglega ekki koma til með að skila hagnaði hvort eð er.

Free at last!

P.S. Ég er ekki að kvarta.

Tuesday, September 05, 2006

Örninn er lentur


Þá hef ég lokið ferli mínum sem flugþjónn og var seinasta flugið eftirminnilegt; leiguflug til Mallorca.

Þegar ég sá flugið á skránni minni varð mér hugsað til sjöunda áratugsins þegar Loftleiðir flugu með fulla íslendinga til og frá sólarlöndum. Þá var öldin önnur: allir með gjaldeyri í tösku, drukkið stíft fram og til baka, keðjureykt aftast í vélinni og ekkert mál að labba fram í flugstjórnarklefa til að eiga orð við flugmennina.

Flugið mitt var hins vegar ósköp venjulegt eins og við var að búast; rólegir og þægilegir farþegar, engin ölvun, ekkert reykt og flugstjórnarklefinn að sjálfsögðu harðlæstur.

Nema eitt: vélin var ekki merkt Icelandair heldur Loftleiðum.

Leiguflugin eru nefnilega gerð út í nafni gamla félagsins þannig að öfugt við allar kempurnar sem ég hef flogið með þessi tvö sumur get ég sagst hafa byrjað ferilinn hjá Icelandair og endað hann hjá Loftleiðum.

Geri aðrir betur.

P.S. Ég varð 25 ára í dag.

Monday, July 17, 2006

"Virkjum Jóa 2006"

...er loksins hafið. Hlaupið var frá Smiðjustíg út í Laugartanga og til baka. Ekkert Boot Camp en mjór er mikils vísir og allur sá jazz...

Fyrir þá sem vilja styrkja málefnið: hægt að leggja fram 100 krónur með því að senda SMS í 1454 og skrifa: AFRAM JOI!

Wednesday, July 12, 2006

Zidane ekki söguna meir

,,Þú getur fjarlægt manninn úr gettóinu en þú getur ekki fjarlægt gettóið úr manninum" sagði Thierry Henry um félaga sinn Zinedine Zidane um daginn. Við Jóhann Alfreð urðum heldur betur hissa þegar atburðir skáldsögunnar okkar sem minnst er á í færslunni hér að neðan urðu að veruleika í úrslitaleik HM á sunnudaginn.

Því set ég þennan póst nú inn til að benda á að efnistök bókarinnar líkja ekki eftir raunveruleikanum heldur öfugt ef eitthvað er.