
Borgaryfirvöld hafa tilkynnt mörgum til hryllings að nú verði farið í herferð til að uppræta máva við Reykjavíkurtjörn.
Mér þótti Gísli Marteinn hálf furðulegur þegar ég sá hann útskýra strategíuna fyrir NFS í gær, hann minnti mig meira á marskálk en þennan mjúka og jákvæða mann sem talaði um leikskóla og fjölskylduna.
En fjölskyldusjónarmið reyndust svo vera tengingin; það verður að uppræta mávana til að börnin geti gefið öndunum brauð í friði, án þess að "hafa mávinn gargandi yfir sér sínkt og heilagt," eins og GMB komst skemmtilega að orði.
Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar, sagði þetta skelfilega hugmynd og benti á að best væri bara að hætta að gefa brauð. Flestir vita enda að öndum er enginn greiði gerður með því að fita þær á sætu brauði.
En hin krúttlega brauð-athöfn er greinilega svo hjartfólgin fjölskyldufólki að það verður að fara út í stórfellda skothríð gegn mávum til að verja hana.
Mér þykir þessi málflutningur standa á slíkum "brauðfótum" (trommusóló hér, takk) að réttast væri að rífa hann (þ.e.a.s. málflutninginn) í mola og gefa öndunum, þá væru nú jólin enda nóg til að smjatta á í því bakaríinu!
Betra væri frekar að finna milliveginn þannig að báðir hópar verði sáttir og tel ég mig hafa lausnina:
Það er ákveðin kúnst að gefa öndum brauð, og sjóaðir brauðgjafar kunna ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Fyrir það fyrsta er hægt að stýra andahópum nokkuð vel ef kastað er markvisst og spart. Mávarnir koma hægar og síður ef þetta er gert RÓLEGA, án þess að heilu brauðstykkjunum sé dælt ómarkvisst út um allt.
Mávarnir munu hinsvegar alltaf koma og því um að gera að láta þau safnast saman frá öndunum. Þetta má gera með því að kasta einstaka brauðbita til þeirra og þétta jafnframt þyrpinguna.
Þegar þeir eru komnir nálægt bakkanum byrjar svo fjörið, og tek ég það fram að sá sem kenndi mér þetta trix var hinn dansk-spænski vinur minn Diego Nielsen sem bjó í Reykjavík í fyrrasumar:
Maður stendur einfaldlega upp og veifar handleggjunum upp og niður í sífellu. Á augabragði forða mávarnir sér allir sem einn, en endurnar eru eftir. Ránfuglar hræðast ekkert nema stærri ránfugla.
Þetta krefst reyndar talsverðar æfingar og er skiljanlegt að börn séu sein til að skilja bæði teórískar og praktískar hliðar brauðgjafar.
Því finnst mér að borgaryfirvöld ættu frekar að prenta bækling þar sem þessar aðferðir eru kenndar og dreifa honum til allra borgarbúa, auk þess sem hægt væri að reisa skilti á völdum stöðum við tjörnina þar sem leiðbeiningarnar væru líka á útlensku fyrir ferðamennina.
Þannig myndu allir fá eitthvað fyrir sinn snúð, fuglavinir, fjöslkyldufólk og borgarstjórn.
Ef þetta nær hins vegar fram að ganga verður mikill sjónarsviptir af mávinum, enda hef hef oft séð spaugileg atvik honum tengd. Læt hér gossa eina sögu:
Eftir mikla djammnótt sumarið 2004 stend ég fyrir utan vöffluvagninn á Lækjartorgi og gæði mér á belgísku bakkelsi.
Sem ég stend þarna verður mér litið á mannkerti sem skjögrar fyrir utan Héraðsdóm, talsvert ölvaður. Sá er klæddur fínum teinóttum jakkafötum, með farsíma í einni hönd og hálfétinn Nonna-bita í hinni. Maðurinn er talsvert málglaður og Nonninn því vanræktur og orðinn gegnsósa af sósunni frægu.
Skyndilega hrynur hálfur Nonninn í jörðina. Helvítis djöfull segir maðurinn og heldur áfram að tala. Hann er varla genginn tvö skref frá slysstað þegar fljúgandi mávur nælir í risavaxinn bitann og hefur sig til lofts með fenginn.
En bitinn er slepjóttur og losnar úr gogg mávsins og hrynur beint niður á vinstri öxlina á manninum sem bölvar mávinum hressilega svo viðmælandinn skilur ekki neitt.
Spurning hvort þessi maður hafi einhverja kontakta í ráðhúsinu?
P.S. Endilega kommentið, ég er gífurlega fáfróður um lífríki Reykjavíkurtjarnar þó ég þykist vel að mér í ýmsu.